Bragi Páll Sigurðarson fer mikinn í grein um mál þunguðu, albönsku konunnar á Stundinni í dag, undir fyrirsögninni „Allir bara að vinna vinnuna sína“. Það er vissulega algengt viðkvæði í þessum málaflokki að starfsfólk Útlendingastofnunar og lögreglu sé „bara að vinna vinnuna sína” þegar upp kemst um umdeildar aðgerðir. Ég er hins vegar ekki sannfærð um að þetta mál sé gott dæmi um það.
Vottorð um það mat heilbrigðisstarfsfólks sem skoðað hafði konuna, að hún ætti ekki að fljúga, var lagt fram. Í stað þess að fresta einfaldlega flutningi þegar læknisvottorð er komið um að konan ætti helst ekki að fljúga, leggur starfsfólk Útlendingastofnunar lykkju á leið sína til þess að útvega annað vottorð sem kveður á um hið gagnstæða. Til hvers? Til þess að tryggja að hægt verði að flytja hana úr landi þrátt fyrir ástand hennar? Hvers vegna var vottorðinu ekki bara hlýtt og flutningi frestað?
Í umræðunni hefur það verið nefnt að fólk leiti hingað til lands til þess að sækja heilbrigðisþjónustu sem það á ekki kost á í heimalandinu, þrátt fyrir vitneskju um að það muni að öllum líkindum ekki fá að vera til lengri tíma. Það er því freistandi að draga þá ályktun að starfsfólk Útlendingastofnunar hafi viljað tryggja að konan yrði flutt úr landi áður en að kostnaðarsamri fæðingunni kæmi.
Hér komum við aftur að þessari pælingu, að fólk sé bara að vinna vinnuna sína. Ef starfsfólk Útlendingastofnunar telur sig „bara vera að vinna vinnuna sína“ í þessu tilviki þætti mér áhugavert að heyra hver starfslýsingin er. Telur Útlendingastofnun það vera í sínum verkahring að tryggja það að enginn „svindli“ á heilbirgðiskerfinu? Telur stofnunin það vera í sínum verkahring að leita allra ráða til þess að koma fólki úr landi áður en það fær þjónustu sem stofnuninni finnst ekki rétt að það njóti?
Þó iðulega sé það vafasöm afsökun fyrir ýmsum verkum Útlendingastofnunar – enda lög og reglur býsna ófullkomin – veltir man því stundum fyrir sér hvort starfsfólk stofnunarinnar sé raunverulega alltaf „bara að vinna vinnuna sína“.